Á þremur geisladiskum flytja tríó Björns Thoroddsen og Andrea Gylfadóttir þekkt sönglög og ljóð í bland við þekkt dægurlög sem endurspegla hinn sanna íslenska sveitalífsanda síðustu aldar, – lög sem fylgt hafa íslensku þjóðinni í áratugi, yfirfull af vor-, sumar- og sveitarómantík og hafa fyrir löngu fest sig í sessi hér á landi, hvort sem þau eru íslensk eða ekki.
“Vorvindar” (2006) Hér leiðir Björn tríóið sitt ásamt
Andreu í mörgum af fallegustu sönglögum síðustu aldar og þá frekar frá fyrriparti aldarinnar og má til dæmis nefna lög eins og Vorvindar glaðir, Draumur hjarðsveinsins, Hlíðin mín fríða, Sveitin milli sanda, Ömmubæn og Blátt lítið blóm eitt er.
Hlusta á Spotify
“Vorvísur” (2007) Á þessum diski kveður við aðeins kröftugri tón en á þeim fyrri eins og heyra má strax í upphafslaginu, Lóan er komin. Önnur lög á disknum er m.a. Smaladrengurinn, Dalakofinn, Mér um hug og hjarta nú, Sprettur, Geng ég fram á gnípur og Heylóuvísa auk fleiri laga.
Hlusta á Spotify
“Heiðanna ró” (2009) Sumar- og sveitastemmningin er allsráðandi hér og lög eins og Fram í heiðanna ró, Réttarsamba, Óli rokkari, Ó fögur er vor fósturjörð, Kvöldið er fagurt, Hvað er svo glatt, Fyrir handan fjöllin háu, Í grænum mó o.fl. prýða þessa plötu sem hljóðrituð var í litlum sveitabæ á höfuðborgarsvæðinu ……. meira
Hlusta á Spotify
Diskarnir fengu allir feiknagóðar viðtökur og þau Björn, Andrea, Jón og Jóhann hafa, allt frá útkomu fyrsta disksins, haldið tónleika víða um land og m.a. verið virk í grunnskóla- verkefninu “Tónlist fyrir alla” í mikilli þökk kennara sem eru ánægðir með þá virðingu sem þau hafa sýnt þessum lögum í nálgun og útsetningum og hafa sumir haft á orði að þessir diskar ættu allir að vera til í hverjum einasta grunnskóla landsins.
Umsagnir úr dagblöðum og netmiðlum
Þjóðlagahátíðin á Siglufirði
Morgunblaðið
Morgunblaðið
Morgunblaðið
Nokkur orð um tilurð þessa verkefnis
Það var fljótlega upp úr síðustu aldamótum sem Jón Rafnsson ámálgaði það við Björn Thoroddsen, félaga sinn, hvort hann væri ekki til í að grúska aðeins með sér í lagasafni sem alla jafna er kallað “fjárlögin” og var gefið út í tveimur bindum árin 1915 og 1916. Það voru þeir Sigfús Einarsson, dómkirkjuorganleikari og Halldór Jónasson sem söfnuðu þessum lögum og útbjuggu til prentunar og útgáfu. Um þó nokkurt skeið hafði þetta lagasafn ekki verið fáanlegt, en árið 1982 komu bæði bindin út í einni bók , óbreytt og í upphaflegum raddsetningum Sigfúsar, undir nafninu “Íslenskt söngvasafn”. Þeir Björn og Jón voru aðeins búnir að máta nokkur af þessum lögum, en skriður komst þó ekki á vinnuna fyrr en haustið 2005 þegar Þórunn Sigurðardóttir, þáverandi framkvæmdastjóri listahátíðar í Reykjavík, hafði samband við þá, – hún hafði heyrt af þessum hugmyndum og bauð þeim félögum að vera með tónleika á listahátíðinni vorið 2006. Og það var ráðist í að velja lögin, en þar var þeim innan handar Rafn Valgarðsson, faðir Jóns og þó svo að lögin væru mikið til sótt í fyrrnefndar bækur, var nú samt ákveðið að hafa lagavalið dálítið opið og fara aðeins út fyrir “fjárlögin”, en halda þó tryggð við þennan fallega, rómantíska sönglagastíl. Og hljómsveitin, – jú, það lá nú bara beinast við að Björn notaðist við tríóið sitt, sem á þessum tíma var auk hans, skipað þeim Jóni Rafnssyni á bassa og Jóhanni Hjörleifssyni á trommur og þeirra draumasöngkona í verkefnið var Andrea Gylfadóttir, sem leist vel á þessar hugmyndir og var meira en til í að vera með. Fyrsti diskurinn, Vorvindar, kom út í maí 2006 í sambandi við áðurnefnda listahátíðartónleika og þar sem lagalistinn var ekki hálfnaður var bara ákveðið að gera aðra plötu og helst þá þriðju og það var gert, – Vorvísur komu út 2007 og Heiðanna ró 2009 ….. og þannig er nú sú saga.
Bókanir:
Jón Rafnsson : 8633177 – jon@jrmusic.is
Björn Thoroddsen : 8921483 – bjornthoroddsen@gmail.com