Jón Rafnsson (1958), stofnandi og eigandi JR Music, hefur starfað við tónlist frá unglingsárum. Tónlistarmenntunin var í fyrstu sjálfsnám á rafbassa, með tilheyrandi spilamennsku á sveitaböllum á suðurlandinu. Frá 1976 og fram til ársins 1983 stundaði hann klassískt tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, á fiðlu, píanó og kontrabassa og síðan framhaldsnám í kontrabassaleik hjá Thorvald Fredin í Stokkhólmi. Tónlistarkennarapróf frá SMI (Stockholms musikpedagogiska institut), þar sem aðalnámsgreinar voru almenn kennslufræði og kontrabassi auk kór- og hljómsveitarstjórnar. Hann hefur allt frá því hann flutti heim frá Svíþjóð árið 1990 verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið jöfnum höndum hina ýmsu tónlistarstíla; jazz, blús, rokk, klassík, með danshljómsveitum, unnið í leikhúsum, bæði sem tónlistarstjóri og hljóðfæraleikari auk þess að leika inn á fjölda geisladiska.
Jón leikur með tríóunum DJÄSS, Guitar Islancio og Delizie Italiane auk annarra tilfallandi verkefna og kennir við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.