Tríóið Guitar Islancio var stofnað haustið 1998 af gítarleikurunum Birni Thoroddsen og Gunnari Þórðarsyni og Jóni Rafnssyni kontrabassaleikara og hefur síðan þá, haldið óteljandi fjölda tónleika og komið fram á tónlistar- hátíðum bæði hér á Íslandi og erlendis;
í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Lettlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Japan, Kína og á Spáni.
Guitar Islancio hefur gefið út fimm geisladiska, þar af fjóra sem innihalda íslensk þjóðlög í léttdjössuðum útsetningum. Þessir diskar hafa allir fengið mjög góðar viðtökur og seldist fyrsti diskur þeirra, “Guitar Islancio” (1999) í gullsölu, sem eru 5000 (eða fleiri) seld eintök, en sá diskur ásamt “Guitar Islancio III” (2001) voru á sínum tíma tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna sem jazzdiskar ársins. Á “Scandinavian Songs” leika þeir þjóðlög frá öllum norðurlöndunum, Færeyjum og Grænlandi, en sá diskur var gefinn út í Japan haustið 2006. Haustið 2010 kom út safndiskurinn “Best of” sem hefur að geyma 15 valin þjóðlög af fyrrnefndum diskum auk nýrrar útgáfu af Tangóinum hans Björns Thoroddsen, sem upphaflega kom út á “Guitar Islancio II”.
Á þeim tíma sem Guitar Islancio hefur starfað hafa fjölmargir þekktir tónlistarmenn leikið með tríóinu, m.a franski fiðluleikarinn Didier Lockwood, franski gítarleikarinn Sylvain Luc, danski klarinettuleikarinn Jørgen Svare og danski fiðluleikarinn Kristian Jørgensen, sænski gítarleikarinn Ulf Wakenius, japanski gítarleikarinn Kazumi Watanabe, belgíski gítarleikarinn Philiph Catherine, bandaríski gítarleikarinn Larry Coryell og kanadíski (vestur-íslenski) trompetleikarinn Richard Gillis, en hann leikur einnig með þeim á geisladiskinum Icelandic Folk (2005), – útg. í Kanada árið 2001 undir nafninu Connections.
Árin 2000 og 2001 voru Guitar Islancio útnefndir “Tónlistarhópur Reykjavíkur”.
Stemmning á tónleikum Guitar Islancio er mikil, enda tríóið rómað fyrir kraftmikla og líflega spilamennsku og ber því virkilega nafn með rentu, en orðið Islancio er úr ítölsku tónlistarmáli og þýðir ákafi eða ofsi; – að leika með ákafa = con islancio. Hljómur orðsins minnir einnig óneitanlega á Ísland og því er nafnið í senn bæði músíkalskt og „íslenskt“ .
Tónleikadagskráin samanstendur af íslenslum þjóðlögum í bland við þekkt lög úr ýmsum áttum; jazz, popp, rokk
Þórður Árnason, gítarleikari hefur gengið til liðs við tríóið í forföllum Gunnars Þórðarsonar og mun leika með tríóinu áfram.