Nat King Cole Trio – Þór Breiðfjörð

Nat King Cole

Jazz goðsögnin heiðruð í sönnum desemberanda

Þór Breiðfjörð – söngur
Andrés Þór – gítar
Vignir Þór – píanó
Jón Rafnsson – bassi

Í þessum kvartett heiðra þeir Þór Breiðfjörð og félagar King Cole tríóið og flytja öll helstu ljúflingslög Nat King Cole í gegnum árin en þó með sérstakri áherslu á þær jólaperlur sem urðu ódauðlegar í hans flutningi, t.d. The Christmas Song, O little town of Betlehem og O Holy Night. Eflaust finna áheyrendur sömuleiðis þarna íslenskar jólaperlur í anda Nat King Cole, sem Þór hefur hljóðritað og flutt í gegnum árin, á borð við Gleðileg jól, ástin mín og Hin fyrstu jól. En að sjálfsögðu munu lög eins og Mona Lisa, When I Fall in Love, Unforgettable, Nature Boy o.fl. hljóma á tónleikunum. King Cole tríóið var upphafið að velgengni Nat King Cole; djassgítar, kontrabassi og svo Nat sjálfur syngjandi við píanóið.

Um flytjendur:

  • Þór Breiðfjörð hefur flutt lög fyrir landsmenn í anda Nat King Cole og fleiri flauelsbarka í mörg ár. Hann á farsælan feril að baki í alþjóðlegum söngleikjum auk þess að hafa unnið Grímuna hér á landi fyrir hlutverk Jean Valjean í Vesalingunum (Þjóðleikhúsið), grímutilnefningu fyrir hlutverk Óperudraugsins í Eldborg og gríðarlega farsæla uppsetningu á Jesus Christ Superstar í Eldborg þar sem Þór söng hlutverk Júdasar. Þór lék og söng Peron hershöfðingja á móti Jóhönnu Guðrúnu í glæsilegri tónleikasýningu á söngleiknum Evitu nú í nóvember og þótti skila sínu hlutverki með afbrigðum vel. Hann hefur gefið út þrjár plötur í eigin nafni, meðal annars jólaplötuna Jól í stofunni sem kom út 2015. Hægt er að hlusta á hér.
  • Andrés Þór Gunnlaugsson er einn fremsti djassgítarleikari landsins og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bæði tónsmíðar og plötuútgáfu. Hann spilar reglulega í leiksýningum og fjölda tónleika hér á landi.
  • Jón Rafnsson er gríðarlega afkastamikill og farsæll hljóðfæraleikari og meðal verkefna hans má nefna tríóin Guitar Islancio, DJÄSS og Delizie Italiane.
  • Vignir Þór Stefánsson er einn af vinsælustu píanistum landsins, bæði í leikhúsi og á alls konar tónleikum.